Myndir Hörpu
 
 
Ferð stórfjölskyldu Atla til Færeyja 26. júlí - 2. ágúst 2005

Séð yfir Þórshöfn.  Kútter Jóhanna liggur þarna i höfninni undir fullum seglum. Okkur Skagamönnum þótti gaman að sjá sjófæran kútter ...

Séð yfir Þinganesið.  Í rauðu húsunum er stjórnsýsla ríkisins.

Kristín og Bjarni ganga upp  Kirkjubæjarrein.  Þórshöfn í baksýn. Litla eyjan er Nólsey.

Atli við upphaf Kirkjubæjarreinargöngu.  Argir (gelískt orð sem þýðir sel) í baksýn.

Máni flytur ræðu í náttúrulegum ræðustól á gönguleiðinni til Kirkjubæjar ...

... en einungis einn áheyrandi fékkst til að sitja í áheyrendabrekkunni!

Fólk fann sér ótrúlegustu og þjóðlegustu viðfangsefni í göngupásum :)  Hér sjást feðginin Bjarni og Eva, sem reynir að kenna föður sínum augnsaum.
 

Á gönguleiðinni er fagurt útsýni yfir eyjarnar Hest (sést hálf til vinstri) og Kolt (þessi skrýtna á miðri mynd).  Við héldum að Koltur þýddi Göltur en komumst svo að því að Koltur er vitaskuld folald (eins og colt á ensku).

Á Magnúsarkirkjurústirnar í Kirkjubæ var búið að setja þessa gífurlega ljótu klæðningu, sem innfæddir kalla "eina bráðfengis veðurverju".

Svo þurftum við að bíða heillengi eftir rútu aftur heim í Þórshöfn því á Ólafsvökukvöldi (daginn fyrir Ólafsvöku) var gert ráð fyrir að allir héldu sig í Þórshöfn og allt lokað annars staðar.

Við gátum þó ríslað okkur við að skoða fé, þ.á.m. þennan myndarlega hrút.  Eins og allir vita þá er "Seyða ull Foroya gull"!

Unglingarnir okkar voru jafn "fyndnir" og venjulega í svona ferðum og Atli alltaf jafn ábyrgur og alvarlegur. 

Mér tókst þó að smella af brosmynd með því að sitja um hann ...

Myndirnar að neðan eru teknar í pínueldhúsinu á Áarvegi (þar sem við Atli og grísirnir þrír bjuggum). Elín heldur á vígalegri kú sem Gunnlaugur vann í einhverju fjárglæfraspilinu á Ólafsvöku.  Kidda öfundaði hann ekki hvað lítið af kúnni!  (Mána og Kiddu tókst að vinna örfá oggulítil dýr meðan grísirnir þrír rökuðu inn stórum og myndarlegum tuskudýrum :)
Á myndinni til vinstri eru kollur Vífils, Alda, Hörður og Harpa.

Prúðbúnir Færeyingar á Ólafsvökudag.  Það voru ALLIR í þjóðbúningum, nema túristarnir. 

Heri í skrúðgöngu þingmanna og presta.

Harpa við minnismerki í Gjógv.  Mig minnir að fjallið heiti Miðdagsfjall.  Sjá má heyþurrkun á lönum og litlu túnblettirnir virtust handslegnir, ýmist með orfi og ljá eða handsláttuvélum. 

Hér sést báturinn Sjúrður sigla inn í Gjógv.  Unglingarnir fylgdust síðan áhugasamir með aflabrögðum og mynduðu hvern einasta fisk.  Þeir komust að því að steinbítur heitir steinbítur á færeysku ;-)

Þessi reffilegi karl spjallaði mikið við okkur og sagði okkur aðeins frá Gjógv.  Þegar hann var í skóla voru 50 börn í skólanum (reyndar var bara einn kennari og sá var 12 barna faðir þannig að það hefur nokk munað um þann kennara!) en núna eru 3 börn á skólaaldri í Gjógv. Viðmælandi okkar hafði unnið við að leggja rafmagn í Reykjavík á sjötta áratug síðustu aldar og var aðallega að hlýða okkur yfir ýmsa veitingastaði og krár þaðan sem hann átti ljúfar minningar.  Því miður könnuðumst við ekkert við Gildaskálann og ýmsa aðra staði hvar komast mátti í smávegis soll fyrir hálfri öld. 

Hér sést færeyskur hestur við litlu ána í Gjógv.  Sem sjá má eru færeyskir hestar heldur smávaxnir.

Í Fuglafirði  var allt lokað seinnipartinn á laugardegi.  Amman hafði smurt nesti og í sjoppunni tókst að koma kaffivélinni í lag.  Indæl sjoppustúlkan leyfði okkur kvenfólkinu að pissa í sitt starfsmannaklósett en almennt séð virtist ekki gert ráð fyrir því í færeyskum þorpum að ferðalangar væru á flækingi.

Á myndinni sést Inga amma vera að fóðra unglingagengið, Elín og Bjarni standa hjá borðinu hvar sitja Atli, Kristín, Hörður, Vífill og Hörður afi.
 

Og þarna eru Alda, Máni, Kidda, Eva, Egill og Gunnlaugur.

Hápunktur ferðarinnar var sigling undir Vestmannabjörgin á sunnudeginum.  Myndin er tekin á bakaleiðinni og litli hvíti depillinn sem ber við bjargið vinstra megin er báturinn á eftir okkar báti (sá var reyndar talsvert stærri en okkar).

Til hægri sést Slettanes, sem er komið í eyði.  Til vinstri sést ein gjáin í Vestmannabjörgum, hitt skipið er að fara að sigla þar inn en okkar skip komið út. 
Fólk var andagtugt og jafnvel dálítið hrætt þegar við sigldum milli risastórra klettanna, inn og út úr hellum og gjám ...

Og útsýnið upp Vestmannabjörgin var dulúðugt og hrikalegt!

Á leiðinni heim, milli Gjógv og Eiðis, blöstu Risin og Kellingin við.  (Kellingin er þessi mjóa.)  Þau ætluðu víst að draga Færeyjar til Íslands en dagaði uppi áður en verkið tókst. 

Grísirnir okkar sem bjuggu á Áarveginum: Vífill og Gunnlaugur til vinstri, Hörður til hægri.
Máni og Kidda, hálfur Jón Júlíus og Kristín í baksýn .... verðlaunagripir grísanna til hægri.

Merkilegt nokk er líka oggulítið Stonehenge í Þórshöfn!

Harpa og Ingibjörg við höggmynd utan við Listasafnið;  Myndin sýnir ófríska konu sem stendur á vatnsbakka og speglast  "í vatninu".

Loks er mynd af manninum við vitann (á Skansinum).  Maðurinn er doldið veikur fyrir vitum ... Sést í fallbyssuhlaup til hægri.