Myndir Hörpu
 
 
Ferð í Heydal í Mjóafirði, N-Ísafjarðarsýslu, 20. - 21. júlí 2010

Við skoðuðum fossinn Glanna í Borgarfirði, rétt hjá Bifröst, enda höfum við alltaf áður ekið fram hjá þessum ágæta fossi.

Og gengum náttúrlega að Paradísarlaut í leiðinni (nokkurs konar mini-Gjá, finnst mér).

Komum við í Ólafsdal og skoðuðum húsið (sem nemar í MS brúkuðu sem skólasel lengi og hafa málað að innan í öllum regnbogans litum!). Núna er skemmtileg sýning til upplýsingar um skólahald Torfa Bjarnasonar þarna og líf hans og Guðlaugar Sakaríasdóttur, konu hans. Manninum þótti merkilegast að dóttir þeirra var látin læra ostagerð í útlöndum og í Ólafsdal var síðan framleiddur Gorgonzola-ostur m.m.

Maðurinn stillti sér því upp við minnismerkið um þau hjón ...

... sem fuglarnir hafa ekki séð í friði!

Við ókum Þorskafjarðarheiði og Steingrímsfjarðarheiði ... umhverfið uppi á heiðunum minnti talsvert á Sléttuna.

Við vegamótin, kannski pappírslega séð á Steingrímsfjarðarheiði, er þessi einkennilega bygging. Í gömlu Kortabókinni okkar var hún merkt með svörtum þríhyrningi sem útleggst: "Skáli, veiðihús, kofi - Tourist hut or shelter". Vonandi taka enskumælandi þetta ekki of bókstaflega, séu þeir með Kortabókina frá 2006.

Ósköp trist lítil bygging og rúður brotnar.

Við heilluðumst ákaflega af Arngerðareyri enda stutt síðan við skoðuðum mökk af feneyskum köstulum í mismunandi góðu standi. Arngerðareyri er í Ísafirði, þar var haldin síðasta galdrabrenna á Íslandi (1683) og þarna var mikill samkomustaður og verslun hér áður fyrr (sjá grein um Halldór Jónsson óðalsbónda á Arngerðareyri en ath. að upp kemur pdf-skjal sem gæti tekið smá tíma að hlaðast inn). 

Inni blasir vandalisminn við ... reyndar fór Atli bara inn í forstofu og við snuðruðum ekki víðar.

En fyrir utan stendur allt í blóma; Hér hafa kornblóm fyrrum húsfreyja vaxið og dafnað.

Atla fannst alveg upplagt að fara í labbitúr upp í Gervidal við Ísafjörð. Svo við byrjuðum að plampa upp veg sem lá innar og innar í dalinn ...

hvar fundust þroskuð bláber á einstaka stað en yfirleitt voru engin ber á lynginu í þessum dal ...

aftur á móti var nóg af Melasól ...

Einhvers staðar lengst inni í þessum mjóa dal tók ég mynd af Atla ... svo gengum við lengra og lengra en gáfumst loks upp því aldrei endaði vegurinn. Kannski liggur hann yfir Skálmardalsheiði niður á Barðaströnd? Á okkar korti er þessi slóð ekkert merkt. 

Á bakaleiðinni hellti maðurinn uppá, neðan vegar, við Gervidalsá.

og við skoðuðum minnstu innisundlaug heims, nálægt eyðibýlinu Gervidal (sem er e.t.v. ekki svo mjög í eyði lengur).

Hún er voðalega lítil og opnar því miður ekki fyrr en í ágúst ...

en ég tók mynd af dýrindinu inn um gluggann.

Í næsta firði, Mjóafirði, er hins vegar minnsta útisundlaug landsins og e.t.v. heimsins, í landi Hörgshlíðar.

Mjóifjörður var fagur daginn eftir þegar við ókum úr botni hans og út hinum megin ... fjöllin handan Ísafjarðardjúps spegluðust í sjónum, gott ef Drangajökul ber ekki  yfir, og nýja brúin við mynni fjarðarins rís í boga.

Selur sat á steini við veginn og speglaðist á hvolfi ...

Hann var í fyrstu feiminn, stakk sér og synti tvo hringi en klifraði svo aftur upp á steininn sinn og fór í sólbað ...

og lá þar og speglaði sig þegar við fórum.

Heydalur, þar sem við gistum og dvöldum í góðu yfirlæti, er í baksýn. Ég stend við lítinn búningsklefa en fremst á myndinni er laug sem Guðmundur góði vígði, ku lækna flestan krankleika. Laugin var í landi Galtarhryggs sem tilheyrir Heydal nú. Í henni var talsvert slý og af undangengnum viðskiptum við Asklepíos hef ég talsvert misst trúna á lækningamátt vatns (svo ekki sé minnst á að dugleg drykkja úr "Brunni eilífrar æsku", í þorpinu Spili á Krít, hefur ekki borið sjáanlegan árangur). Svo ég drap ekki svo mikið sem fingri oní laugina atarna.

Í Heydal er hins vegar alvöru sundlaug, inni í gróðurskála með suðrænum jurtum. Maðurinn fór í kvöldsund ...

Engjarós í Heydal. Við maðurinn rökræðum grimmt hvort Jón Helgason hafi kannski ekki þekkt sundur engjarós og fjalldalafífil, sbr. hendingarnar "dumbrauðu höfði um dægrin ljós/ drúpir hin vota engjarós".  Þessi rökræða mun eflaust endast nokkur sumur.

Í Vatnsfirði mátti sjá tvö frumleg fallstykki sem beinast að sjónum, líklega til að halda Böskum og Tyrkjum frá - myndin sýnir annað stykkið.

Þar var og þetta fallega hvannastóð, við upplýsingaskilti um fornleifauppgröftinn á staðnum.

Og við sáum ekki betur en þarna væri komin hakkavél Þorvaldar Vatnsfirðings ...

Kirkjan var læst en ég tók þessa mynd inn um glugga (sem er líklega doppóttur af flugnaskít) og finnst fallegt að hafa gluggana skrautlausa því útsýnið er svo fagurt.

Á Nauteyri er gömul kirkja ...

og úr-sér-sprottinn kirkjugarður ...

og rúst við sjóinn (Reykjanes í baksýn) ...

og þetta myndarlega bú, sem vekur óneitanlega öfund hvers fyrrum drullumallara! Búið tilheyrir sennilega gestum í sumarhúsi sem stendur á Nauteyri.

Í Leifsbúð, í Búðardal, fann ég mér til ánægju, á bakaleiðinni, þessa fínu mynd af langa-langafa ásamt opinberu fjölskyldunni sinni, hangandi með með öðrum gömlum skileríum á vegg.

Gert 21. júlí 2010