Myndir Hörpu
 
 
Laugarvatn 2. ágúst - einkum formæður og forfeður

Nanna og Sölvi eru alltaf mest fótógen í svona fjölskyldu-sammenkomstum ...

Kankvís umhverfisverndarsinninn ... en í glugganum speglast stífluaðdáandinn ...

Drengbarnið tók þessa; Frá vinstri eru þetta mamma, Freyja (í skugga), Atli, Hrefna og samvaxin kamínu-Harpa!  Mér finnst einkar ósmekklegt að svo virðist sem ég hafi fótbolta fyrir höfuð en aftur á móti soldið smekklegt að geta greint naglalakkið á tánum ;) 
 

Eftir þetta gafst ég upp á sólarmyndum og snéri mér að forfeðrum og formæðrum.  Hér sjást Jón Einarsson, langafi minn, og Pálína Hildur Jónsdóttir Laxdal, langamma mín. Þau voru virðuleg kaupmannshjón á Raufarhöfn forðum tíð, Jón og Sveinn bróðir hans fluttu þangað frá Hraunum í Fljótum en Pálína var frá Akureyri. Maðurinn (minn) þorir ekki að sverja fyrir að ég hafi e.t.v. erft augnsvip Pálínu en ég lít afar mikið upp til hennar (þótt amma mín, uppeldisdóttir hennar, hafi talið hana mestu gribbu) því hannyrðahæfileikar Pálínu voru firnamikilir. (Kann að spila þar inn í að svona fín frú, í þá daga, hafði náttúrlega vinnukonur í massavís og gat setið og saumað út lungann af deginum ... af þessum heimilisaðstæðum  blóðöfunda ég hana auðvitað!) 

Leiðrétting:  Jón og Sveinn voru víst ekki landnemar á Raufarhöfn því fyrir voru Norðmenn og sennilega einnig Lund-fólkið, Maríus Lund og Guðrún?  Laxdalsfólkið var skylt Lund-fólkinu og hugsanlega kynntust þau Jón og Pálína þegar hún var í heimsókn hjá Maríusi Lund.

Svo ég verð að hætta að grobba mig af því að forfeður mínir hafi landnumið þrjú krummaskuð; Eftir stendur Kópasker og Búðardalur (langa-langafi í föðurætt).  Þessir forfeður voru allir í verslunarrekstri svo ég er væntanlega á rangri hillu í lífinu, genetískt séð ...

(Hér þurfti ég að leiðrétta dálítið):  Amma mín saumaði þetta veggteppi veturinn 1959 - 60, þá hún sat í gifsi eftir að hafa fótbrotnað við að hoppa yfir búðarborðið (iðja sem hún hélt samt staðfastlega áfram því ég man eftir að hafa séð þetta hopp-yfir-búðarborð sem krakki).  Fyrir utan að sauma út veggteppið passaði amma mig í vöggunni en lét mömmu vinna í búðinni. Ég hélt að frú Pálína hefði saumað út veggteppið en það er sumsé ekki rétt.

Pálína  virtist  nokkuð hafa sérhæft sig í afspyrnu ljótum krosssaumsmyndum af einhverjum útlenskum herragörðum og trjágöngum að þeim (þetta vill móðir mín leiðrétta því á röngunni sjást litirnir ennþá og myndirnar hafa víst einhvern tíma verið miklu fallegri, auk þess sem mótífin hafa væntanlega verið højeste mode í þann tíð).  Ég skoðaði gífurlega flotta harðangursdúkana Pálínu  í dag og sakna náttúrlega dúkanna með enska saumnum, sem lentu með húsgagninu "sjéffónernum" til annarra ættingja, við lát ömmu minnar. Nútildags er svona broderi Anglaise auðvitað unnið í saumavélum og fjöldaframleitt.
 

Hér eru svo myndir af afa mínum, Einari Baldvini Jónssyni, og ömmu, Hólmfríði Árnadóttur. Afi var einkasonur Jóns og Pálínu en amma átti systkinafjöld, fædd á Brekku, nálægt Kópaskeri.  Árni Ingimundarson, faðir hennar, var landnemi á Kópaskeri.  Amma var hins vegar tekin í fóstur til Jóns og Pálínu og giftist svo uppeldisbróður sínum. Amma mín var feikilega merkileg kona sem ég hafði mikil samskipti við og vona að ég líkist eilítið :)  Hárið á mér er náttúrlega ekki svipur hjá sjón miðað við ömmu, reyndar er þessi mynd af henni tekin fyrir 1918 en þann vetur dvaldist hún í Reykjavík (til að læra á pjanóforte), fékk spönsku veikina og missti þetta fallega þykka hár. Þegar hárið óx á ný varð það aldrei eins þykkt og áður. 

(Myndin af afa er ofurlítið teygð því ég var að taka myndir af ljósmyndum sem hanga upp á vegg.)

Gert 2. ágúst 2006