Myndir Hörpu

Krísku myndirnar á síðu Atla
 

 
Ferð Atla, Hörpu og Vífils til Krítar, 3. - 17. júlí 2006

Harpa

(Fyrstu þrjár myndirnar eru af ferðalöngum í aldursröð, allar teknar á sama veitingastaðnum, á hæsta hólnum fyrir ofan Platanias ströndina þar sem við dvöldum)

Atli

Vífill

Á leiðinni að þessum veitingastað var stytta af myndarlegum geithafri, sem þeir feðgar máta sig við.

Fyrstu dagana var rok og sem sjá má hefur húsfreyjan fjárfest í krítverkskri flís.  Myndin er tekin í Hania (XANIA, sem einu sinni var höfuðborg Krítar). Í baksýn er gamla moskan, sem ekki er í brúki lengur. Vitinn er hins vegar frá dögum feneyskra yfirráða. 

Feðgar á bryggjunni og feneyski vitinn í baksýn.  Veður - og sjólag þessa fyrstu tvo daga minnti okkur mjög á heimaslóðir!

Á markaðnum í Hania rakst maðurinn á þessa dýrlegu ostabúð og  gladdist mjög yfir framleiðslu innfæddra ;)

Svo undarlega vildi til að á veitingastað í Hania sáum við mann sem virtist vera náskyldur mér!  Reyndar sá ég fullt af Krítverjum sem hefðu sem best getað verið afabræður mínir ... maður fer að spyrja sig um genin í þessari ætt ...

Við rúntuðum um einn dag í bílaleigubíl.  Vegir á Krít eru mjög spennandi og ég gæti trúað að Ólafsfirðingum fyndust þeir á heimavelli keyrandi um í hillunum í einhverjum hårnålesvingum, svo ég sletti nú (hafandi legið í sólbaði í tæpar tvær vikur innan um haugana af Dönum og Svíum).  Hér erum við hjónin, í hávaðaroki, fyrir utan vegasjoppu (trjábolirnir gegna hlutverki stóla).  Fyrir neðan okkur er suð-vestur-ströndin og Lýbíuhafið.

Drengbarnið á sama stað (leirkerið er borð) og sama Lýbíuhafsströnd lengst fyrir neðan.

Hér sjást staðhættir við Elofanisi, ólýsanlega fallega strönd á suðvesturoddanum.  Ég hef aldrei séð jafn tæran sjó! Við Vífill erum að vaða í land í eyju.  Þarna er allt alfriðað og engin hótel við ströndina. 

Harpa í tröppunum við Moni chrisoskalitissa (seinni hlutinn þýðir "af gulli gert"), sem er ákaflega heilagt klaustur. María mey ákvað sjálf staðhætti (en ég nenni ekki að rekja þá sögu), í tímans rás var þetta nunnuklaustur en er nú munkaklaustur í fullum rekstri.  Stiginn var upphaflega einn af 90 stigum sem lágu upp á Golgata, þeir voru allir úr gulli. Nú er einungis eftir ein trappa úr upphaflega stiganum.  Einungis þeir sem eru syndlausir og hjartahreinir sjá gulltröppuna.  Karlpeningur heimilisins heldur því fram að ég hafi fiffað myndina í Paint Shop Pro en ég segi bara:  Þér vantrúaðir! ;)

Atli og Vífill fyrir utan hellinn Agia Sofia (sem er heilagur staður en ég man því miður ekki hvers vegna).

Maðurinn hreykir sér í Agia Sofia. (Því miður voru leðurblökurnar í hellinum ekki mjög fótógenar og því engar myndir af þeim.)

Feðgarnir voru afar upprifnir yfir ferð sinni til Knossos.  Þarna er ég að sýna að konur sem ekki nenna til Knossos heldur ljóstillífa á sandinum geta alveg aktað sem snákagyðjur þrátt fyrir það ... nenni reyndar ekki að klóna snáka á ljósmyndina af mér og kann ekki við að dressa mig eins og snákagyðjan - að öðru leyti erum við alls ekki ósvipaðar, finnst mér ;)

Ég nennti þó með feðgunum í mikla giljagöngu.  Hér sést elsku maðurinn í upphafi göngu, við erum þarna stödd í 1200 metra hæð en yfir gnæfir fjallið Gigilos sem er álíka hátt og Hvannadalshnjúkur. Feðgarnir afþökkuðu að syngja "Göngum, göngum, göngum niðrí gilið ... o.s.fr." á leiðinni.

Samaria gilið framundan, fjöllin í kring í dularfullum bláma enda lögðum við í hann snemma morguns og sólin ekki almennilega farin að skína. (Af norðlensku yfirlæti læt ég þess getið að mér finnst þetta helv... flott mynd hjá mér!)
Samaria er sagt vera hrikalegasta gljúfur Evrópu ... en allt er afstætt - e.t.v. er verið að meina hrikalegasta göngufæra gljúfur Evrópu? Það er þjóðgarður, með ýmsum merkilegum plöntum og milli 300 - 400 Kri-kri geitur vappa þar um.
Tek fram að ég var með harðsperrur dauðans næstu tvo daga eftir Samaria gönguna ...

Feðgarnir í upphafi göngu (upphafið eru 200 tröppur í krákustígum beint niður).

Hér er Atli að vingast við Kri-kri kiðling.  Kri-kri er afgamall geitastofn sem hefur verið til á Krít frá dögum Mínosar konungs í það minnsta.  (Sumir halda að þessi geitastofn sé skyldur sjaldgæfum villigeitum í Kákasus.) Geiturnar krítversku eru að sjálfsögðu alfriðaðar og þær er einungis að finna í Samaria gljúfrinu og svo á eyju heilags Þeófanosar, sem blasti við okkur á okkar góðu strönd.  Umferð um eyjuna er bönnuð nema einn dag á ári, þá haldin er messa heilags Þeófanosar í oggulítilli kapellu á eynni.  Alla aðra daga geta Kri-kri unað sér villtar við að tímgast, úti í þessari eyju.

Vífill reynir að heilla sömu Kri-kri ...

Í ljós kom að þetta var enn sjaldgæfari Kri-kri en venjulega þekkjast;  Þessi var 65% öryrkja-kri-kri.  Glöggir skoðendur sjá væntanlega að á hana vantar annað hornið og annað augað er blint, lítur út eins og svört steinvala.

Til samanburðar er hér venjuleg geit, reyndar á hálfgerðri eyðiströnd og virðist lifa á grjóti eins og háeðlar íslenskar kindur gera á afréttum sumstaðar (t.d. á Rótarsandi eða Biskupstungnaafrétti sumstaðar).

Þarna hefur maðurinn stillt sér upp með Járnhliðið í baksýn.  Járnhliðið er mjög neðarlega í gljúfrinu, þar eru örfáir metrar milli himinhárra klettaveggja.  Sjá má túristahjörð vera að trítla þar í gegn.

Sumstaðar á gilbotninum mátti sjá einhverjar dvergvörður í tugatali.  Okkur var ekki ljóst hvaða tilgangi þær áttu að þjóna en til öryggis er Vífill að fara að efna til einnar svona dvergvörðu.

Við vorum orðin svo leið á sífelldum spurningum krakkans um hvað klukkan væri að Atli keypti handa honum úr ...

Feðgar á veitingastað við hliðina á hótelinu okkar.

Dæmi um grískan mat: 

Efri rétturinn heitir "Stolið lamb" (Kleftiko) og er soðið lambakjöt með rauðri og grænni papriku, tómötum og jógúrt hellt yfir.

Neðri rétturinn heitir "Máltíð drukkna mannsins" og er reykt svínakjöt með osti, lauk og tabaskó-sósu hellt yfir. 

Mér þóttu þetta athyglisverð heiti ;)
 

Gert 18. júlí 2006