Myndasíða Hörpu
Krít 2007 myndir Atla
 
 
 
Dvöl á Krít 30. júní - 21. júlí 2007


Þau sem voru saman fyrstu tvær vikurnar, á Kato Stalos ströndinni norðanvert á Krít.  Myndin er sennilega tekin á veitingastað í Hania (Xania).


Af svölunum á hótel Antonis, á Kato Stalos; Enn sést friðaða eyjan Þódóró, þar sem kapella heilags Þeódórs stendur og villtu Kri-kri geiturnar una sér við æxlun og útrýmingarflótta. (Í fyrra horfðum við löngum á öndverða hlið eyjunnar, ef ég man rétt.)

(Af svölunum): Ég kýs að kalla þessa mynd "Yfirgefin" ... jafnvel "Ein og yfirgefin" ...

Yngri kynslóðin í Hania, ljósin í Feneyska vitanum sjást í baksýn.


Þau eldri og ráðsettari á sama stað.  (Mér þótti ég líta dálítið gærulega út, enda vön lopapeysum hnepptum upp í háls.  Unnustu sonarins tókst að sannfæra mig um að þetta væri hreint ekkert gærulegur klæðnaður fyrir konur á mínum aldri ;)  Maðurinn er hins vegar í bol með Hippokratesar-eiðnum á forngrísku og grískri stafagerð. 


Feðgar á veitingahúsi - sennilega því þar sem yfirþjónninn talaði sænsku og var yfirleitt fullt af sænskum túristum.  Staðurinn hér Pyr-eitthvað en við kölluðum hann Pyroman, af tillitssemi við sænska. 


Parið, á sama stað ... sem sjá má var ég að gera tilraunir með lita- og birtubreytingar. (Myndavélin mín tekur um of bláar myndir, þ.e. í blárri birtu.)


Eftir að hafa kvatt yngri kynslóðina ókum við hjón suður á bóginn.  Myndin sýnir dæmigerðan veg af betri sortinni.  Maðurinn ók öruggur okkar Fíat-leigu-lús um 180° beygjurnar. 


Á leiðinni til Sougia reyndi ég að mynda Hvítufjöll (þar sem Samaria-gljúfrið er) og smáþorið Maza hinum megin í þessum dal á myndinni. Við ókum svo seinna í gegnum Maza eftir krákustigu á dalbarminum. 


Eyðileg ströndin í Sougia, myndin er tekin eldsnemma morguns, þ.e. laust fyrir kl. 9 (í Sougia eru menn rólegir og taka daginn ekki snemma). Hamrarnir til vinstri eru há fjöll sem ná alveg ofan í sjó og víkur inn á milli.  Þetta minnti mjög á landslag á Hornströndum; Menn príla yfir fjall ofan í vík, príla yfir næsta fjall ofan í næstu vík o.s.fr. Einhvers staðar við endann á þessu er Agia Roumeli, bærinn við enda Samaria, þar sem göngugarpar taka ofvaxna Akraborg til Souia (rúturnar bíða rétt utan við bæinn).

Við hjónakornin á bryggjunni við Sougia - megnið af þorpinu sést bakvið. 

 
Næsta vík í austur er Lissos. Þar býr enginn en þarna stóð merkilegt þorp / borg í fornöld, talsvert fyrir Krist og eru nú rústir við hvert fótmál í Lissos. Við trítluðum yfir fjall og erum þarna að hefja niðurgönguna ofan í Lissos.  Litli báturinn var leigubátur finnskra túrista.  Við hringdum  hins vegar á leigu-taxa til baka af því við nenntum ekki að labba sömu bakaleið. 


Harpa í hofi Asklepiosar (lækningaguðsins).  Ég held á fullri flösku af vatni úr heilagri lind, sem ku lækna alla sjúkdóma. Nú bíð ég eftir árangrinum ;) Hofið er eldgamalt en mosaík-gólfið er frá fyrstu öld e. Kr. 

Atli á sama stað ... einnig með lækningarvatn í flösku.


Mosaíkið er gífurlega flott og hefur staðist tímans tönn með ágætum!  (Enda held ég að rigni tiltölulega lítið þarna sunnanmegin.)


Maðurinn glöggvar sig á kortinu - annað hvort á ströndinni í Lissos eða Paleochora (prófessjónal túristabær sem við heimsóttum).

Að lokum:  Mynd af manninum í sólbaðsham í Sougia: Takið eftir vöðvunum!

Gert 23. júní 2007