Handavinnusíða Hörpu
Heimasíða Hörpu Hreinsdóttur
Þessi vefur fjallar um sögu prjóns og eldra prjónles. Það verður að ráðast hversu langt sú saga nær, æskilegast væri auðvitað að komast allt til nútímans.
Undanfarið hálft ár hef ég verið að viða að mér heimildum, sem er svo sem ekki áhlaupsverk hér uppi á Íslandi. En ég hef þó náð í þær tvær bækur sem teljast merkastar heimilda um prjónasögu, þ.e. bók Richard Rutt, A History of Handknitting (útg. 1987) og bók Irene Turnau, History of Knitting before Mass Production (útg. 1991). Þær eru aðalheimildir mínar en auk þess leita ég í aðrar bækur, greinar og vefsíður. Svo er bara að sjá hverju fram vindur.
Það er nokkuð á reiki hvað er talið upphaf prjóns. Þar veldur m.a. að sumir, einkum í eldri heimildum, vilja telja nálbragð/vattarsaum til prjónaskapar, þótt aðferðir við slíkt sé talsvert ólík prjóni. Almennt telja menn að prjón eins og við þekkjum það í dag hafi verið fundið upp í Mið-Austurlöndum, þ.e. löndum araba, hugsanlega Austurlöndum. Elstu prjónastykkin eru oftast taldin ættuð frá Egyptalandi og nágrenni. Egyptaland var löngum suðupottur ýmissa þjóðarbrota og því ómögulegt að segja hvaðan tæknin gæti verið upprunnin.
Líklegt er að prjónakunnátta hafi borist til landanna við Miðjarðarhaf frá Mið-Austurlöndum enda mikil verslunarsamskipti þar á milli. Bein tengsl virðast milli egypsku eða islömsku sokkanna og spænskra svæfla enda er talið að Márar á Spáni hafi prjónað þá. Þessir spænsku svæflar hafa löngum taldir elstu dæmi um prjón í Evrópu. Á síðari árum hafa Irene Turnau og fleiri nefnt önnur dæmi um evrópskt prjónles sem hugsanlega gæti verið eldra. Fyrir þessu verður gerð grein síðar.
Dura bútarnir og koptísku sokkarnir
Fegursta tvíbanda silkiprjónið og vangaveltur um brugðið prjón
Egypskir (arabískir eða islamskir) sokkar
Svissneskar skjóður undir helga dóma, frá fjórtándu öld
Upphaf vefjarins apríl 2011
Harpa Hreinsdóttir