[Handavinna] [Heimasíða Hörpu Hreinsdóttur]
 
 
Hannyrðir Hörpu

 
Þetta eru bækur sem ég hef gert um ættina mína. Ég hef notað blurb.com til verksins og mæli með þeirri vél. En menn ættu að passa sig á himinháum tollum sem bætast ofan á verðið og einnig er rétt að vara við afar lélegri þjónustu hraðpóstsendinga hjá Tollembættinu í Keflavík - vissast að athuga hvort pakkinn manns liggi og mygli inni í geymslu þar á bæ þegar mann er farið að lengja eftir honum!

Hér að neðan sést hvað ég varð glöð að ná loksins stóru bókinni út úr tollinum um árið ;)


Sumarkvöld eftir Scheving Kýrin Meskalína (útfærsla á Sumarnótt Schevings) loksins tilbúin, innrömmuð og hengd á vegg, haustið 2011. Hannyrðakonan guðsfegin að hafa lokið verkingu ;)
7. september 2010

Þetta er Kýrin Meskalína sem stendur ... ekki ýkja mikið eftir en ég er önnum kafin við annað og hef lagt frá mér stykkið um stund. Það klárast samt örugglega fyrir jól :)
 

Hér að neðan er lítil nærmynd af saumnum og sést að vænlegra hefði verið að sauma með óklofnu Kambgarni í svo grófan java. Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á ...



 
Mars 2010: Þessi mynd er tekin fyrir tíu kílóum og tæpu hálfi ári síðan. Ég hafði loksins tekið á mig rögg og ákveðið að klára verkið sem fjölskyldan kallar Kýrin Meskalína

Myndin er saumuð með gamla krosssaumnum / fléttusaumi og  augljóslega byggð á frægu málverki. Munstrið krafðist töluverðrar myndvinnslu og var loks búið til í WinStitch, fyrir mörgum árum.

Nú er ég næstum búin með myndina og birti mynd af henni fullsaumaðri einhvern tíma fyrir þessi jól :)

 

12. mars 2006:  Þófastakkurinn er prjónaður úr norsku Fritidsgarni og svo þveginn á 40° straufríu löngu prógrammi.  „Lausu“ grænu ermarnar eru þæfðar á styttu prógrammi.  Uppskriftin var meira eða minna hönnuð jafnóðum svo ég get ekki birt hana (en hún byggist annars á því að prjóna prufu, þæfa og reikna síðan allt út frá umferðum og hve marga sentimetra umferðirnar gefa á þófnu stykki.)

Allt sem er svart var prjónað í einu stykki og ekkert saumað.  Grænu tiglarnir í ermagötunum voru klipptir út úr velþæfðu prjónuðu stykki og saumaðir í eftir á. Hálsmálið þurfti að klippa til og ég kappmellaði með Fritidsgarni hringinn í kring.  Af því stykkin voru þæfð svo mikið er enginn vegur að þau rakni upp og því þurfti ekkert að sikksakka.

Þófastakkurinn er ákaflega hlýr og þess vegna eru loftgöt undir handvegum ;)

Saumað er fríhendis í stakkinn, með lykkjuspori og Kambgarni.

Brosið er algerlega gervi!

Eins og gildir um annan kennaraklæðnað er bakstykkið flottara ...

Ermi að framan.
 

Ermi undir (loftgötin sjást ;)
 

Ermi á hlið.
 

Stakkur að aftan.



Þæfður inniskór, prjónaður úr norsku Eskimo garni - Uppskriftin er hér. Ég er langt komin með hinn inniskóinn en varð uppiskroppa með garn, þ.e.a.s. kláraði þennan lit úr búðinni. Í hvorn inniskó fara þrjár dokkur. 
 
 

Skórinn er ansi stór fyrir þæfingu, sokkur hannyrðakonunnar 
er til samanburðar. 

En snarminnkar eftir veruna í þvottavélinni ...


 


 Hér sést í fótlegg hannyrðakonunnar þá hún mátar gripinn ...

Og önnur mynd af leggnum, biðst afsökunar á sokkafarinu um ökklann ...

 

Hér að neðan sést peysa prjónuð úr einföldum plötulopa og síðan þæfð á 40° í þvottavél, þeytivinding 900 snúningar. Ég prjónaði á prjóna nr. ca. 3 en af því ég prjóna svo laust má ætla að normal prjónandi hannyrðakona hefði náð svipaðri áferð á prjóna nr. 6 - 7.  Í bolinn voru fitjaðar upp 150 lykkjur. Annars er uppskriftin þannig:  Ég prjónaði 100 lykkja, 20 umferða stykki og þvoði í vél.  Síðan reiknaði ég út hve marga þæfða sentimetra þessi umferðafjöldi og þessi lykkjufjöldi gerði.  Sá að stykkið þófnar miklu meir á þverveg en langveg (20 umferðir voru 11 cm fyrir þvott en 6,5 cm eftir þvott).  Síðan reiknaði ég öll mál út í umferðum og lykkjum, byggt á þæfingu, en notaði engin sentimetramál á óþæfða stykkið enda ekkert að marka þau. Uppskriftin er hér.

Í peysuna fóru tæplega þrjár plötur af lopa svo efniskostnaður var tæpar 1.000 kr.

Óþæfð peysan, séð að aftan.

Þæfð peysan, séð að aftan.

Þæfð peysan séð að framan (hún er höfð dálítið fríkuð í laginu ;)

Þæfða peysan á hlið.

Óþæfð peysan að framan (lítur druslulega út og það gerir fyrirsætan líka ...)


Þæfða peysan að framan í nærmynd, bæði peysa og fyrirsæta líta mun betur út ...

Mynd og hluti púða ... saumað með fléttusaumi (gamla íslenska krosssaumnum) í smyrnastramma, með þreföldu Kambgarni. Alls saumaði ég fjóra púða, tvo með norskri áttblaðarós, tvo stærri með mótívi úr Riddarateppinu. (Munstrin eru í bók Elsu E. Guðjónson: Íslenskur útsaumur.)

Peysa prjónuð haustið 2004.  Munstrið er prjónað í, tekið úr bók Elsu, Íslenskum útsaumi

Vífill í peysu sem ég prjónaði í veikindum í október - nóvember 2004.(Peysan er vel að merkja of stór á Vífil en passar þokkalega vel á mig sjálfa ...)  Munstrið á bakinu er úr bók eftir Kaffe Fassett og er byggt á norsku miðaldaklæði, sýnir "heimsku meyjarnar" úr biblíusögu.  Myndin á framstykki er paradísartré úr bók Elsu Guðjónsson, munstur á ermum er fengið úr sömu bók.  Aðallitur er eitthvert sprengt ullargarn, munstrið er prjónað úr allra handa ullargarni, ýmist tvöföldu Kambgarni eða grófara ullargarni.  Peysan er mjög hlý. 

 

Kisupeysan sem ég prjónaði í veikindum í nóv. 2004 - jan. 2005 (man reyndar ekki hvenær ég lauk henni enda fokkaðist minnið gersamlega upp í þessum veikindum :)  Munstrið á bakinu er unnið úr málverki Louis Wain, listamanns sem þjáðist af skítsófreníu, sjá frummynd hér að neðan.  Munstrið á framstykkjum og ermum er unnið úr myndum sem ég fann á Vefnum auk eigin hönnunar.  Það er auðvitað tær geðveiki að prjóna út svona peysu, bara að ganga frá öllum endunum var Kleppsvinna ;)

 

Lopapeysa sem ég prjónaði á viku nú á dögunum, vegna fundafargans.  Hún er prjónuð úr norskum lopa (Eskimo), stærðin miðuð við Ístex-peysuna sem allir eru í, munstrið fengið úr eldri Ístex-bók og því breytt svolítið, þ.e. munstrið er prjónað niður á bol og ermar en ekki bara í berustykkið (hringúrtökuna).  Þar sem norski lopinn er talsvert grófari en sá íslenski þurfti að gerbreyta lykkjufjölda í uppskriftunum tveimur sem ég studdist við.  Ég mæli eindregið með þessum norska lopa, hann er óspunninn og ofboðslega þægilegt að prjóna úr honum, aftur á móti er hann talsvert dýrari en sá íslenski.  Peysan er hlýjasta peysa ever ...

Gert í október 2005
Uppfært í ágúst 2010
Harpa Hreinsdóttir