Uppskrift að þæfðri rauðri peysu, prjónuð úr einföldum plötulopa
Byrjað á að krota upp mynd af peysu (þ.á.m. að ákveða standkraga, víðar ermar og annan boðunginn stærri en hinn, í laginu eins og skakkur þríhyrningur). Svo mældi ég við peysu sem passar vel á mig og ákvað þessi mál:
Vídd: 100 cm
Lengd upp að öxlum: 47 cm
Lengd upp að ermi: 23 cm(og þ.a.l. ermavídd við axlir a.m.k. 24 cm).
Svo prjónaði ég 100 lykkju prufu, 20 umferðir, úr einföldum plötulopa, prjónafesta miðast væntanlega við prjóna nr. 7 hjá venjulegum prjónakonum (en ég prjóna rosalega laust og var með miklu fínni prjóna). Ég mældi svo stykkið og breiddin (100 lykkjur) reyndist 79 cm og lengdin (20 umf.) voru 11 cm.
Stykkinu var skellt í þvottavél, þvegið á 40 gráðum, með venjulegu þvottavélarþvottaefni, og þetta prógramm þeytivindur á 900 snúninga hraða.
Eftir þvott var stykkið, þá þæft, endurmælt og þá kom í ljós að breiddin (100 lykkjurnar) var 67,5 cm og lengdin (20 umf.) var 6 cm.
Að þessu loknu voru öll mál miðuð við þæfða stykkið og umferðir og lykkjur reiknaðar út með einfaldri þríliðu.
Ég setti upp dæmið: Ef 100 lykkjur gefa 67,5 cm (þæft), hvað margar lykkjur þarf til að gefa 100 cm (þæft)? Fékk út að það væru 148 lykkjur en til að einfalda málið fitjaði ég upp 150 lykkjur. Prjónaði svo 146 rauðar lykkjur og hafði 2 + 2 svartar á jöðrunum.
Sömu útreikningar (blessuð þríliðan) sögðu að 23 þæfðir sentimetrar á lengdina (upp að ermum) myndu vera 76 umferðir. Sama aðferð gaf að 150 umferðir myndu dekka ca. 45 cm (og ákvað að nota það í staðinn fyrir upphaflega áætlun 47 cm, upp að öxlum, s.s. heildarlengd peysunnar). Ég fann út að til að gera hægri boðunginn 15 cm breiðari en þann vinstri efst á stykkinu þyrftu 22 lykkjur sem ég deildi nokkuð jafnt niður á 150 umferðir og ákvað að auka út, hægra megin, eina lykkju í sirka 7. hverri umferð.
Svo prjónaði ég og prjónaði og merkti við, á pappírsmiða, hverja umferð (ég er ekki mjög góð að telja umferðir eftir á á stykki). Þegar komið var að ermum felldi ég úr 4 lykkjur neðst í handveg hvorum megin. Prjónaði svo bakstykki og hvort framstykki, man ekki lengur hvað ég felldi af mikið fyrir hálsmáli en byggði það örugglega á þríliðureikningi miðað við þæft stykki.
Axlirnar voru prjónaðar saman þannig að ég prjónaði saman axlarlykkjur af bak- og framstykkjum á röngunni og felldi af um leið. Þetta er fín aðferð, maður losnar við saumaskap og þetta lítur nokkuð vel út á réttu.
Svo tók ég upp 145 lykkjur í handvegnum, felldi úr eina lykkju + prjóna eina + fella úr eina, neðst á erminni, í annarri hvorri umferð. Hvor ermi var 127 umferðir (miðað við þæfða ermalengd 38 cm) og lykkjufjöldi við úlnlið var kominn í 42 lykkjur.
Svo tók ég upp lykkjur í hálsmáli og prjónaði kragann, man ekki lykkjufjölda né umferðir. En kraginn er bara prjónaður einfaldur, stykkið stífnar alveg nóg við þæfingu.
Í rauninni var ekkert saumað í þessari peysu nema rétt neðst á ermunum, af því ég átti engan nógu stuttan ermahringprjón. Saumurinn kemur ekki nógu vel út og það er mjög erfitt að sauma með einföldum plötulopa. Þannig að ég ráðlegg þér að reyna að sleppa saumum sem mest, reyna frekar að prjóna saman eða taka upp lykkjur.
---
Svo krossaði ég fingur, þvoði peysuna á 40° prógrammi, með vélþvottaefni, og þeytivinduhraða 900 snúningar. Hún var dálítið stíf þegar ég tók hana úr vélinni en svo lagði ég hana í kalt vatn með fullt af mýkingarefni í smá stund og þurrkaði svo á handklæði. Núna er hún þokkalega mjúk. Peysan stingur pínulítið, svona eins og lopapeysur gera, svo eiginlega þyrfti ég að fóðra hana.